Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 41/2011

Föstudagurinn 11. janúar 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 2. ágúst 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. júlí 2011, þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 2. september 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 20. september 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 22. september 2011, og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 4. október 2011.

 

I. Málsatvik

Kærandi er ógiftur og barnlaus. Hann býr hjá unnustu sinni og syni hennar í húsi í hennar að B götu nr. 5, sveitarfélaginu C. Starfar kærandi við tölvuskóla á veturna og heimagistingu á sumrin. Núverandi mánaðartekjur hans eftir frádrátt skatts eru 154.679 krónur. Aðrar tekjur eru húsaleigugreiðslur fyrir fasteign kæranda að D götu nr. 28, sveitarfélaginu C, sem eru 100.510 krónur eftir frádrátt skatts. Áætlaðar vaxtabætur eru sem nemur 33.333 krónur á mánuði og 16.667 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Áætlaðar mánaðarlegar heildartekjur kæranda eru því 323.189 krónur.

Kærandi rak E ehf. frá 2004, sem var prentsmiðja og tölvuskóli. Árið 2007 seldi hann tölvuskólann og prentsmiðjuna ári síðar. Hafði hann þá stofnað nýsköpunarfyrirtækið F ehf. Árið 2010 tók hann aftur við tölvuskólanum þar sem kaupandinn hafði ekki staðið við gerðan kaupsamning. Er kærandi með rekstur tölvuskólans á eigin kennitölu. Auk þess rekur hann heimagistingu á sumrin. Að sögn kæranda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika hans til síðustu þriggja ára en á því tímabili hefur hann verið að vinna að nýsköpunarfyrirtækinu F ehf. og tekið á sig skuldbindingar vegna félagsins en ekki fengið neinar tekjur vegna þess ennþá.

Heildarskuldir kæranda eru 55.191.754 krónur samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þær falla innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, (lge.), að undanskilinni skuld vegna vangoldins virðisaukaskatts að fjárhæð 403.685 kr.

Helstu skuldir kæranda sem falla innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara skiptast þannig: Skuldbindingar sem stofnað var til á árunum 2004-2005 vegna íbúðarkaupa, samtals upphafleg fjárhæð 24.876.783 krónur, staða nú 41.171.820 krónur. Jafnframt skuldbindingar sem stofnað var til á árinu 2007 vegna bílakaupa, upphafleg fjárhæð 7.811.224 krónur, staða nú 11.372.306 krónur. Aðrar skuldir eru samtals 2.647.628 krónur.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru samtals 37.280.482 krónur. Þar er helst að nefna kröfu Landsbankans (NBI hf.), áður hjá Sparisjóðnum í Keflavík, upphafleg fjárhæð 12.400.000 krónur, staða nú 24.333.405 krónur, tryggð með veði í fasteign kæranda. Ástæða lántöku var stofnun tölvuskóla. Aðrar skuldbindingar kæranda eru kröfur Landsbankans (NBI hf.) vegna tölvuskólans og X ehf.

Tekjur kæranda undanfarin ár hafa verið eftirfarandi: Árið 2007 voru mánaðarlegar tekjur hans að meðaltali 175.928 krónur eftir frádrátt skatts, 98.920 krónur árið 2008, 15.875 krónur árið 2009 og 157.268 krónur árið 2010.

Þann 8. júlí 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. júlí 2011, með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi segir ástæðuna fyrir skuldum sínum vera tekjuleysi á árunum 2008-2010, hann hafi engar tekjur haft á þessum árum nema atvinnuleysisbætur. Auk þess hafi hann engar tekjur haft af F sökum þess hversu langan tíma það tekur að koma nýsköpunarfyrirtækjum á legg. Skuldir hafi því hrúgast upp.

Hvað varðar bifreið þá sem kærandi keypti með láni frá SP-fjármögnun árið 2007, og umboðsmaður gerir athugasemdir við, bendir kærandi á að kærasta hans hafi selt aðra bifreið sam kærandi hafði tekið þátt í að borga í, á sama tíma og kærandi keypti umrædda bifreið árið 2007. Greiðslubyrði bifreiðarinnar sem var seld hafi verið hærri en af bifreiðinni sem kærandi keypti 2007. Auk þess hafi kærasta hans tekið þátt í afborgunum af bifreiðinni sem kærandi keypti 2007.

Í greinargerð sinni tekur kærandi fram að ekki hafi verið veð í bifreiðinni og því hafi SP-fjármögnun ekki átt forgang að þeim fjármunum sem komu vegna sölu bifreiðarinnar umfram aðra kröfuhafa. Andvirði af sölu bifreiðarinnar hafi runnið til ýmissa kröfuhafa, SP-fjármögnun hafi ekki verið rétthærri kröfuhafi en aðrir lánardrottnar kæranda.

Segir kærandi einnig að bifreiðin hafi verið keypt til þess að flytja hana erlendis og allir hlutaðeigandi hafi vitað af því. Bifreiðin hafi aldrei verið skráð á Íslandi. Kærandi bendir einnig á að hann telji að svo miklir vankantar séu á samningnum um umrædda bifreið að efast megi jafnvel um lögmæti hans.

Fer kærandi því fram á að umboðsmaður skuldara veiti sér greiðsluaðlögun.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. júlí 2011, með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Telur umboðsmaður það ljóst vera af gögnum málsins að þegar kærandi stofnaði til skuldbindingar með bílaláni við SP-fjármögnun í apríl 2007 að fjárhæð sem nam upphaflega 7.811.224 krónur hafi fjárhagsstaða hans verið mjög þröng. Framtaldar tekjur hans hafi ekki dugað fyrir eigin framfærslu og afborgunum af áhvílandi veðlánum en á sama tíma hafi kærandi skuldsett sig með umræddri lántöku við SP-fjármögnun og bætt þannig á sig greiðslubyrði sem nam 122.959 krónur Telur umboðsmaður skuldara að með þessu hafi kærandi tekið á sig fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað.

Bendir umboðsmaður á að samkvæmt skattframtali ársins 2008 fyrir tekjuárið 2007 voru samanlagðar útborgaðar tekjur kæranda á árinu 774.572 krónur. Hafi að meðaltali útborgaðar tekjur hans þannig verið 98.920 krónur. á mánuði að teknu tilliti til greiðslu vaxtabóta. Á sama tíma hafi eignir kæranda verið samtals 26.440.000 krónur. og skuldir 37.322.692 krónur. Einnig hafi hvílt ábyrgðarskuldbinding á kæranda í apríl 2007 að upphaflegri fjárhæð 12.400.000 krónur. Að mati umboðsmanns hafi kærandi því þegar verið í greiðsluerfiðleikum í apríl 2007 og alls ekki fær um að taka á sig frekari skuldbindingar. Með bílaláninu hafi kærandi því með ámælisverðum hætti aukið mjög á skuldasöfnun sína.

Auk þess hafi kærandi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt með því að flytja umrædda bifreið úr landi og selja hana þar án þess að láta söluandvirðið renna til greiðslu á bílasamningnum. Með þessum gjörningum hafi kærandi gerst brotlegur við ákvæði í samningsskilmálum sem umræddur bílasamningur grundvallaðist á. Kærandi hafi því hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og óhæfilegt hafi því verið að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til c-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist fyrst og fremst á því kærandi hafi stofnað til umtalsverðrar skuldbindingar sem hafi ekki verið í neinu samræmi við þá greiðslugetu sem kærandi þá hafði, samkvæmt uppgefnum tekjum. Með þessari skuldasöfnun hafi kærandi því tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað. Með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögum synjað.

Við mat á því hvort beita skal þessu ákvæði laganna ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, einkum áranna 2004, 2005 og 2007, en meginhluti lána kæranda voru tekin á þessum árum. Fyrir liggja gögn um tekjur og eignir kæranda síðastliðin ár.

Að mati kærunefndarinnar þykir ljóst að nettótekjur kæranda, sérstaklega árið 2007, voru lágar miðað við þá skuldbindingu sem hann hafi tekist á hendur á sama tímabili. Þannig voru tekjur kæranda árið 2007 að meðaltali 98.920 krónur, en áætluð greiðslubyrði nýrra skuldbindinga sama ár vegna bifreiðar var 122.959 krónur. Að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og eldri skuldbindinga var lántaka á árinu 2007 meiri en kærandi gat staðið undir og komnar lagt fram úr greiðslugetu hans.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið undir afborgunum af miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, leiði til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Með vísan til þess að á sama tíma og kærandi tók á sig veigamiklar skuldbindingar voru tekjur hans lægri en afborganir af lánum einum sér, óháð öðrum útgjöldum, svo sem framfærslu og húsnæðiskostnaði, er hafið yfir vafa að skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum